Flogið stanslaust fram á kvöld

Glaðir þjóðhátíðargestir í Herjólfsdal.
Glaðir þjóðhátíðargestir í Herjólfsdal. mbl.is/Ómar

Enn fjölgar gestum á þjóðhátíð í Eyjum. Herjólfur er að koma með um 500 manns og stanslaust er flogið frá Bakkaflugvelli, og verður fram á kvöld. Þá fer Flugfélag Íslands fjórar ferðir í dag.

Tjaldvæði í Herjólfsdal er að fyllast og er áætlað að setja upp önnur svæði nálægt dalnum sjálfum, segir lögreglan.   Verði flugfært  þá tvo daga, sem eftir eru af hátíðinni, hafa verið fluttir um tíuþúsund manns til Eyja.

Tvö minniháttar fíkniefnamál komu upp í nótt, en lögregla telur það ekki mikið. Í öðru málinu fann fíkniefnahundur lykt af farþega sem var að koma með Herjólfi kl.  6 í morgun. Í ljós kom að sá var með fíkniefni innvortis og reyndist það vera 10 til 12 grömm af kókaíni. Hitt málið var þegar leitað var manni í Herjólfsdal en á honum fannst maríjúana.  Alls eru það sjö lögreglumenn með þrjá hunda sér til fulltingis sem sinna fíkniefnaleit um helgina.

Á daglegum samráðsfundi lögreglustjóra með fulltrúum gæsluliða, þjóðhátíðarnefndar og sálgæslu/barnavernd kom fram að fyrsti dagur hátíðarinnar hafi tekist mjög vel og engin teljandi vandræði komið upp.

Tveir gistu fangageymslu vegna ölvunar eftir nóttina. Einn var kærður vegna líkamsárásar en hann ruddist inn í hús í bænum og sló húsráðanda. Vitað er hver árásarmaðurinn er og verður hann yfirheyrður í dag. Nokkuð var um pústra og slagsmál í Herjólfsdal.

Einn ökumaður var tekinn vegna gruns um ölvun við akstur. Tveir voru kærðir fyrir önnur umferðarlagabrot. Lögregla og gæsla þurftu að hafa afskipti af nokkrum vegna þessara mála. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka