Gúmmíbáti hvolfdi á Skorradalsvatni

Skorradalsvatn.
Skorradalsvatn. mbl.is/Árni Sæberg

Litlum gúmmíbáti með tveimur veiðimönnum innanborðs, hvolfdi á Skorradalsvatni í dag skammt undan landi á mótum jarðanna Vatnsenda og Hvamms. Mennirnir höfðu sett í stóra bleikju og ætlaðu að fara að háfa hana inn þegar bátnum hvolfdi og bátsverjarnir féllu útbyrðis.

Einar S. Einarsson, sem á sumarbústað á bakka vatnsins, sá þegar bátnum hvolfdi. Hann segir, að annar mannanna hafi komist fljótlega á kjöl en hinn hafi haldið í bátinn. Einar var með árabát í fjörunni, sem var mannaður og honum róið að skipbrotsmönnunum, sem voru 100-150 metra frá landi. Á sama tíma bar að hraðbát og fylgdust menn þar um borð með aðgerðum.

Annar maðurinn var tekinn um borð í árabátinn og gúmmíbáturinn var tekinn í tog og síðan var róið í land. Einar segir, að mennirnir tveir hafi verið nokkuð slegnir en að öðru leyti ekki orðið meint af volkinu. Bleikjan hvarf hins vegar í vatnið með stöngina í eftirdragi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert