Hornsteininum ekki stjórnað af Borgarbyggð

Meirihlutastjórn Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM) fer í hendur Kaupþings, skv. tillögu stjórnar sjóðsins um stofnfjáraukningu. Tillagan verður lögð fram 15. ágúst. Eftir aukninguna verður Kaupþing 70% eigandi með 1.750 milljónir, aðrir fjárfestar 10% eigendur og Borgarbyggð, sem hingað til hefur átt sjóðinn að fullu, með um 20% stofnfjár. Sjóðurinn er því metinn á um 2,5 milljarða og hefur eignasafn hans rýrnað mikið frá því í fyrra.

Ljóst er að óánægja er með þetta í Borgarbyggð, enda ekki langt síðan SPM var álitinn með sterkari sparisjóðum. „Kjörorðið hefur til þessa verið „Hornsteinn í héraði“ og hann hefur staðið undir því. Þetta er því alls engin óskastaða,“ segir Björn Bjarki Þorsteinsson, forseti sveitarstjórnar. Nú er spurning hvort á löngu líður áður en SPM rennur alfarið inn í bankann. Um það ræður sveitarfélagið engu eftir þetta en Björn Bjarki segir Kaupþing þó skilja samfélagslegt hlutverk SPM.

Hann fæst ekki til að segja að SPM hafi í raun verið orðinn gjaldþrota en hins vegar segi það sig sjálft að staðan sé ekki góð þegar koma þurfi inn með tveggja milljarða stofnfé til viðbótar. Borgarbyggð veltir tveimur milljörðum árlega. Ekki er talið réttlætanlegt að hún taki lán til stofnfjáraukningar.

Rætt um sölu sjóðsins í fyrra

Í fyrra kom upp umræða um hvort selja ætti SPM og nota andvirðið til að greiða skuldir sveitarfélagsins og bæta þjónustu við íbúa, svo sem að bæta tómstundaaðstöðu og byggja leikskóla. Þá voru stjórnmálamenn hins vegar á því að fengur væri að sjóðnum fyrir sveitarfélagið og ekki skyldi selja. Eignir hans voru þá metnar á töluvert hærri upphæðir.

Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og íbúi í Borgarbyggð, segir gærdaginn svartan dag fyrir Borgfirðinga. Hann var einn þeirra sem töldu í fyrra rétt að selja sjóðinn. „Í fljótu bragði sér maður ekki að þeir peningar sem hefðu fengist þá muni skila sér til íbúanna úr þessu,“ segir Snorri. Sveitarfélagið sé fámennt og salan hefði getað skipt miklu fyrir hvert mannsbarn þar á sínum tíma.

Sveinbjörn Eyjólfsson, oddviti framsóknarmanna í minnihluta sveitarstjórnar, segist sleginn yfir þróun mála. Hann hafi ekki alltaf verið sammála meirihlutanum um málefni SPM en kveðst heldur ekki hafa haft þær töfralausnir sem hefðu getað skilað annarri niðurstöðu. Stjórnmálamönnum hafi ekki dottið í hug af fullri alvöru að selja. „Þetta verður áfram Sparisjóður Mýrasýslu í einhverja daga, mánuði eða ár,“ segir hann. Reynslan sýni svo hversu vel sjóðurinn sinni heimabyggð sinni hér eftir. Ekki þurfi að setja hornin undir eins í Kaupþing.

Í hnotskurn
» Sparisjóður Mýrasýslu hefur verið eina lánastofnunin í 100% eigu sveitarfélags en slíkt er auðvitað ekki skylduhlutverk þeirra.
» Rökstuðningur stjórnmálamanna í Borgarbyggð hefur m.a. verið sá að slík stofnun þjóni heimabyggð sinni betur en venjulegur banki væri tilbúinn til að gera.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert