Það er óhætt að fullyrða að miðvikudagurinn síðasti hafi verið óhappadagur í lífi Georgs Kára Hilmarssonar, bassaleikara Sprengjuhallarinnar. Þessi heitasti dagur ársins hófst hjá tannlækninum þar sem pilturinn þurfti að dúsa í tvær klukkustundir á meðan tannsi vann að undirbúningi fyrir brú í munninn á honum.
Svo beið hann ásamt hljómsveit sinni við bakka Laugardalslaugar eftir því að hljóðbíll Ríkissjónvarpsins mætti í hús. Hann kom rétt fyrir beina útsendingu Kastljóssins sem varð svo til þess að allt fór úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis í beinni útsendingu þegar sveitin frumflutti lag sitt Sumar í Múla fyrir landann. Aðeins heyrðist í gítar og söng. Eftir allt þetta endaði dagurinn svo með hörmungum.
„Í lokin, þegar við vorum komnir úr útsendingu þá ákvað ég að fórna mér fyrir fólkið á staðnum og skutla mér út í laug,“ segir Georg. „Ekki fór betur en svo að ég sparkaði í einhverja álplötu sem var þarna á bakkanum. Þetta kallaði á fimm klukkustunda bið á slysó þar sem saumuð voru sex spor. Það blæddi sem betur fer ekki mikið í laugina en þetta var eins og sláturhús þarna á bakkanum.“
Það hefur þó vonandi veitt Georg einhverja gleði að spila fyrir sundlaugagesti en meðan piltarnir biðu eftir hljóðbílnum skemmtu þeir sundlaugargestum.
Sprengjuhöllin kemur svo fram á Innipúkanum í kvöld en það verða einu tónleikar helgarinnar.