Erlendur ferðamaður, sem leitað var að í nótt í nágrenni við Landmannalaugar, fannst laust fyrir klukkan 7 í morgun. Var hann þá orðinn kaldur en að öðru leyti við góða heilsu. Einnig var leitað í nótt að átta konum, sem voru á göngu við Sveinstind en þær skiluðu sér ekki í náttstað á tilsettum tíma. Konurnar fundust fljótlega og ekkert amaði að þeim.
Um var að ræða Hollending á miðjum aldri, sem ætlaði í gær að ganga á milli Landmannalauga og Hrafntinnuskers en kom ekki þangað á tilsettum tíma. Leit hófst um klukkan 22 í gærkvöldi og voru alls um 60 manns frá 10 björgunarsveitum sendir til leitar en talið var að maðurinn væri illa búinn. Leitarmenn voru á sérútbúnum jeppum og fjórhjólum og á beltabíl. Þá tók þyrla Landhelgisgæslunar þátt í leitinni undir morgun.
Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli fannst maðurinn laust fyrir klukkan sjö við Bláhnúk skammt frá Landmannalaugum. Hafði hann þá villst í þoku. Verið er að flytja hann í Hrafntinnusker og þaðan til byggða.
Ein átta manna sveit var á sama tíma að leita við Sveinstind vestan Vatnajökuls að átta manna gönguhópi. Hópurinn fannst fljótlega og amaði ekkert að en fólkinu hafði sóst gangan hægar en búist var við.