Fannst heill á húfi

Hrafntinnusker.
Hrafntinnusker. mbl.is/RAX

Erlendur ferðamaður, sem leitað var að í nótt í nágrenni við Landmannalaugar, fannst laust fyrir klukkan 7 í morgun. Var hann þá orðinn kaldur en að öðru leyti við góða heilsu. Einnig var leitað í nótt að átta konum, sem voru á göngu við Sveinstind en þær skiluðu sér ekki í náttstað á tilsettum tíma. Konurnar fundust fljótlega og ekkert amaði að þeim.

Um var að ræða Hollending á miðjum aldri, sem ætlaði í gær að ganga á milli Landmannalauga og Hrafntinnuskers en kom ekki þangað á tilsettum tíma. Leit hófst um klukkan 22 í gærkvöldi og voru alls um 60 manns frá 10 björgunarsveitum sendir til leitar en talið var að maðurinn væri illa búinn. Leitarmenn voru á sérútbúnum jeppum og fjórhjólum og á beltabíl. Þá tók þyrla Landhelgisgæslunar þátt í leitinni undir morgun.

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli fannst maðurinn laust fyrir klukkan sjö við Bláhnúk skammt frá Landmannalaugum. Hafði hann þá villst í þoku.  Verið er að flytja hann í Hrafntinnusker og þaðan til byggða.

Ein átta manna sveit var á sama tíma að leita við Sveinstind vestan Vatnajökuls að átta manna gönguhópi. Hópurinn fannst fljótlega og amaði ekkert að en fólkinu hafði sóst gangan hægar en búist var við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert