Mikill meirihluti þjóðarinnar, eða 92%, er hlynntur því að skylda útlendinga, sem ætla að setjast að á Íslandi til frambúðar, til að læra íslensku. Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallup. Hefur afstaða Íslendinga lítið breyst frá árinu 2004 en þá voru 90% aðspurðra þessarar skoðunar.
Tæplega 18% Íslendinga telja nú að reglur sem heimila útlendingum að setjast að á Íslandi séu of strangar en 37% telja þær hæfilegar. Um 45% Íslendinga eru hins vegar þeirrar skoðunar að reglur, sem heimila útlendingum að setjast að á Íslandi, séu of rúmar.
Þetta er breyting frá árinu 2004 en þá töldu töluvert færri reglurnar vera of rúmar eða um 28%.
Þegar spurt var um reglur um pólitískt hæli á Íslandi voru niðurstöður á annan veg. Um 40% landsmanna telja reglur um pólitískt hæli of strangar en tæplega fimmtungur telur reglurnar of rúmar. Hlutfall þeirra sem telur reglurnar hæfilegar er 40%.
Svarendur voru einnig beðnir um að meta hvort þeir teldu að útlendingar, sem setjast hér að, fái jákvæð eða neikvæð viðbrögð frá Íslendingum. Litlar breytingar hafa orðið á viðhorfi landsmanna frá því árið 2004 en 47% landsmanna telja nú að útlendingar sem setjast hér að fái jákvæð viðbrögð frá Íslendingum.