Bílablaðamenn frá ýmsum löndum munu koma til Íslands í september til að reynsluaka sjöttu kynslóðinni af Volkswagen Golf, sem kemur á markað á næsta ári.
Þetta kemur m.a. fram í norska blaðinu VG í dag. Hanne Hattrem, blaðamaður VG, segir, að með þessu sé VW væntanlega að gefa til kynna að ýmsar umhverfisvænar nýjungar séu í bílnum því á Íslandi sé að finna áfyllingarstöðvar fyrir vetnis- og metanbíla. Þá hafi Ísland lýst því yfir að það vilji vera leiðandi á sviði nýrra orkugjafa.
Gert er ráð fyrir að Golf VI verði frumsýndur formlega á bílasýningu í París í október. Myndir, sem sagðar eru vera af bílnum, eru þó byrjaðar að birtast í fjölmiðum.
VW Golf kom fyrst á markað árið 1974 og hefur verið einn mest seldi bíll í Evrópu síðan.