Skákhátíð Hróksins á Grænlandi

Skákhátíð Hróksins á Grænlandi 2008 hófst í dag, í þremur þorpum á austurströndinni. Þetta er sjötta árið í röð sem liðsmenn Hróksins efna til hátíðar fyrir börn á Grænlandi. Hátíðin nú felur í sér kennslu, fjöltefli, barnaskákmót og fleiri viðburði.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hróknum.

Hátíðin nær að þessu sinni til þorpanna Kulusuk, Tasiilaq og Kuummiit, og nær hámarki um næstu helgi þegar VI. alþjóðamót Hróksins á Grænlandi verður haldið í Tasiilaq.

Hróksmenn héldu fyrsta skákmótið í sögu Grænlands árið 2003, og leiðangurinn nú er sá fimmtándi sem vinnur að útbreiðslu skáklistarinnar meðal okkar næstu nágranna.

Hátíðin nú felur í sér kennslu, fjöltefli, barnaskákmót og fleiri viðburði í þorpunum þremur. Á miðvikudag verða þannig barnaskákmót í öllum þorpunum þremur og er gert ráð fyrir að hátt í 200 grænlensk börn taki þátt í mótunum.

Skákmótið um næstu helgi verður jafnframt afmælismót Sigurðar Péturssonar, sem kallaður er Ísmaðurinn, en hann býr í Kuummiit og hefur verið ómissandi hjálparhella við starfið á Grænlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert