Breska skemmtiferðaskipið Queen Elizabeth 2 kom í morgun til Ísafjarðar og hefur legið við legufæri í Skutulsfirði. Skipið gat ekki lagst við höfnina enda er það engin smásmíði, um 70 þúsund lestir. Um 1800 farþegar komu með skipinu og settu þeir svip sinn á bæinn í dag og nutu veðurblíðunnar.
Queen Elizabeth 2 smíðuð í Clydebank í Skotlandi árið 1967. Skipið er eitt af síðustu skipunum sem var í áætlunarferðum yfir Atlantshafið en í september 2007 hafði skipið siglt samtals 5,6 milljón sjómílur, farið 25 hringferðir um hnöttinn og siglt yfir Atlantshafið 801 sinni.
Queen Elizabeth 2 var lengi flaggskip Cunard skipafélagsins eða þar til Queen Mary 2 leysti það af hólmi árið 2004. Skipið er ekki nefnt eftir Elísabetu II Englandsdrottningu eins og margir telja heldur eftir fyrirrennara skipsins, Queen Elisabeth sem var reyndar nefnt eftir móðir drottningarinnar.
Þetta verður í síðasta sinn sem skipið heimsækir Ísafjörð og Ísland en áætlað er
að leggja því í lok ársins meðal annars vegna þess að uppfyllir ekki lengur öryggiskröfur. Búið er að selja það til fjárfesta í Dubai sem hyggjast gera það upp í upprunalegum stíl frá
árinu 1967 og nota sem lúxushótel, spilavíti og safn.