Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni að sér þyki það einkennilega að orði komist hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi að hermálið hafi klofið þjóðina í herðar niður.
„Hinn pólitíski ágreiningur snerist um aðildina að Atlantshafsbandalaginu (NATO), samstarfið við vestrænar lýðræðisþjóðir andspænis Sovétvaldinu. Um það var deilt, hvort nauðsynlegt væri að hafa varnarviðbúnað í landinu og hvort semja ætti við Bandaríkjamenn um varnir landsins og dvöl liðs þeirra hér á landi í krafti þess samnings. Ágreiningurinn tók á sig nýja mynd, eftir að Sovétríkin hurfu úr sögunni. Við erum enn í NATO og varnarsamningurinn er enn í gildi, þótt ekki sé lengur varnarlið með fast aðsetur í landinu.
Vinstri/grænir feta í fótspor Alþýðubandalagsins, þar sem Ólafur Ragnar var formaður, og eru enn á móti NATO og varnarsamningnum. Þjóðin var ekki „klofin í herðar niður“ vegna þessara mála. Það var ávallt traustur meirihluti meðal þjóðarinnar fyrir aðildinni að NATO, varnarsamningnum og veru varnarliðsins," segir Björn m.a.