Niðurstöður umhverfisráðherra um sameiginlegt umhverfismat álvera og tengdra framkvæmda, annars vegar í Helguvík (3. apríl) og hins vegar á Bakka við Húsavík (31. júlí), eru andstæðar. Margir hafa lýst undrun sinni vegna hinnar síðari, um Bakka, og telja þá fyrri hafa átt að gefa fordæmi. En af hverju eru niðurstöðurnar þá ólíkar?
Úrskurðurinn um Bakka er fyrsta beiting sameiginlegs mats, fordæmalaus. Hins vegar virðist fordæmisgildi úrskurðarins um Helguvík takmarkað. Þar réðst niðurstaðan af því að ákvörðun var haldin formgalla og þar að auki segir í niðurlagi hans að hann sé ekki fordæmisgefandi um aðrar matsskyldar framkvæmdir tengdar Helguvík. Er hann fordæmisgefandi um önnur álver, ef hann er það ekki einu sinni um sama álver síðar meir?
Fólgin í áliti sem kom eftir á
Skipulagsstofnun tók ekki sérstaka og sjálfstæða ákvörðun um sameiginlegt mat í Helguvík, heldur var hún eingöngu innifalin í áliti stofnunarinnar á umhverfismatinu, sem eðlilega var gefið eftir að umhverfismatinu var lokið. Landvernd kærði og ráðuneytið áleit þetta formgalla, því ákvörðunina hefði átt að tilkynna áður en umhverfismatið var gert. Þennan galla var ekki hægt að láta bitna á framkvæmdaraðilunum, sem voru búnir að framkvæma matið í góðri trú. Úrskurðurinn um Helguvík byggðist því að stórum hluta á meðalhófsreglunni. Ákvörðun eftir á, um sameiginlegt umhverfismat, þótti of íþyngjandi. Reyndar töldu sumir að Skipulagsstofnun hefði tekið ákvörðunina vorið 2006, í áliti um matsáætlun Helguvíkur. Kærufrestur væri útrunninn og vísa ætti kærunni frá.
Umhverfismati framkvæmdanna fyrir norðan er hins vegar ekki lokið. Einungis tvær frummatsáætlanir af fjórum lágu fyrir þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar var kærð.
Svo virðast fáir vita hvernig hið sameiginlega umhverfismat allra framkvæmda bætir ferlið. Einna helst hefur verið vísað til „gegnsærra ferlis“ og sammögnunaráhrifa framkvæmdanna, sem verði betur ljós. Samt er það lögfestur hluti umhverfismats sérhverrar matsskyldrar framkvæmdar að meta eigi möguleg sammögnunaráhrif hennar með öðrum framkvæmdum.
Virkjanir í Helguvík eftir
BERGUR Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir úrskurð umhverfisráðherra um Bakka fordæmisgefandi. Ekki sé því útséð um að orkuflutningar og orkuöflun fyrir álverið í Helguvík verði látin sæta sameiginlegu umhverfismati, þótt álverið sjálft standi þar utan. „Ég tel einsýnt í ljósi þessa nýja úrskurðar að orkuöflun og orkuflutningar um Reykjanesskagann fari í sameiginlegt mat. Málum af þessu tagi ber í framtíðinni, í ljósi hans, að beina inn í sameiginlega skoðun. Í raun þýðir þetta að við fáum líka heildstætt mat fyrir Helguvík.“ Umhverfismati virkjana fyrir Helguvík er enn ólokið.