Auglýst hefur verið starf forstjóra Keflavíkurflugvallar ohf. sem er ný staða sameinaðs félags Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Umsóknarfrestur er til og með 16. ágúst.
Opinbera hlutafélagið Keflavíkurflugvöllur var stofnað 26. júní í kjölfar lagasetningar Alþingis og skal félagið frá 1. janúar næstkomandi taka yfir rekstur og starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Samgönguráðherra fer með hlut ríkisins og framkvæmd laganna og skipaði hann stjórn félagsins á stofnfundinum sem starfa skal fram að fyrsta aðalfundi þess. Jón Gunnarsson er formaður félagsins.
Í auglýsingu um forstjórastarfið segir meðal annars að starfs- og ábyrgðarsvið forstjóra sé fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á starfsemi sem tilheyri Keflavíkurflugvelli og dótturfélögum, eftirlit með að framfylgt sé lögum, reglugerðum, alþjóðasamningum og fyrirmælum um flugstarfsemi, uppbygging og stefnumótun, áætlanagerð, skipulags-, öryggis- og umhverfismál og innlend og erlend samskipti.
Gerðar eru kröfur til háskólamenntunar á sviði viðskipta eða um sambærilega menntun sem nýtast muni í starfinu, víðtækrar stjórnunarreynslu, framkvæmdavilja og metnaðar, framúrskarandi samskiptahæfni, samningatækni, þekkingar á fjármálum og góðrar og öruggrar framkomu.
Keflavíkurflugvöllur ohf. tekur við rekstri, viðhaldi og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar sem borgaralegs flugvallar auk hagnýtingar flugvallarsvæðisins í þágu öryggis- og varnartengdrar starfsemi svo og rekstri, viðhaldi og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Félaginu er heimilt að standa að stofnun annarra félaga og fyrirtækja og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Þannig er félaginu heimilt að taka þátt í félagi sem ætlað væri að annast atvinnuuppbyggingu á nærsvæði flugvallarins.