Gönguamman komin til Bretlands

Rosie dregur Icebird í Glasgow.
Rosie dregur Icebird í Glasgow.

Rosie Swale Pope, sem gengið hefur umhverfis jörðina, er nú í Liverpool á Englandi og áætlar að komast á leiðarenda, heimabæ sinn í Tenby í Wales, 25. ágúst. Rosie hefur verið rúm fjögur ár á göngunni og slitið 45 pörum af gönguskóm á leiðinni. 

Rosie, sem er 61 árs að aldri, hóf gönguna eftir að eiginmaður hennar, Clive Pope, lést af völdum blöðruhálskrabbameins. Vildi hún vekja athygli á rannsóknum á þessum sjúkdómi og einnig safna fé til munaðarleysingjaheimilis í Rússlandi.

Hún byrjaði á að ganga til Lundúna og suðurstrandar Englands þar sem hún tók ferju yfir Ermarsund. Hún gekk síðan yfir Evrópu og Rússland og tók bát frá Síberíu til Alaska. Þaðan gekk hún yfir Kanada til Chicago og New York og sigldi síðan yfir Atlantshafið til Grænlands og loks til Íslands í febrúar sl. Alla þessa leið dró hún á eftir sér lítinn vagn, sem hún nefnir  Icebird.

Dvölin hér á landi varð lengri en til stóð því Rosie datt í hálku nálægt Mývatni og vagnkjálkinn rekist í síðu hennar og fjögur rifbein brotnuðu. Hún dvaldi því í tjaldi við Mývatn í nokkrar vikur á meðan hún var að ná sér. Héðan fór hún með Smyrli til Færeyja í byrjun júní. Í Færeyjum dvaldi hún nokkra daga en fór síðan með Smyrli til Scrabster á Skotlandi.

„Það er ótrúlegt að vera aftur í heimalandinu eftir nærri fimm ára fjarveru. Hér er ég, eftir að hafa slitið 45 pörum af skóm, og ég hef ekkert lært en ég er samt hamingjusamasta kona í heimi," var haft eftir Rosie við komuna til Skotlands.  

Heimasíða Rosie

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert