Bolvíkingurinn Hávarður Olgeirsson hjólaði á reiðhjóli frá Reykjavík til Bolungarvíkur á dögunum. „Þetta var skemmtileg afþreying og góð leið til að njóta sumarsins. Það var mjög hlýtt og gott veður. Ég gisti undir berum himni fyrstu nóttina þar sem ég sá engan tilgang í að tjalda í svo góðu veðri.“
Hávarður segist hafa verið um það bil þrjá daga og þrjá klukkutíma á ferðalaginu. „Ég var með GPS tæki á ferðinni og samkvæmt því var ég 497 km frá efra Breiðholtinu þar sem ég lagði af stað og þar til ég var kominn á leiðarenda. Ég var á ferðinni í rúma 42 klukkutíma og stopp í sjö tíma, fyrir utan þann tíma sem ég svaf. Ég var með mat, tjald, búnað og fatnað meðferðis og ég vil ekki vita hversu þungt hjólið var, held það sé betra að vita það ekki.“
Aðspurður segir Hávarður ferðalagið hafa verið ansi erfitt. „Þetta var helvíti erfitt og ég held ég hafi hjólað síðustu 250 km bara á þrjóskunni. Ég hjólaði í fjórum leggjum. Fyrst frá Breiðholti í Hvalfjörðinn, þaðan í Búðardal og þaðan í botn Ísafjarðar og svo hjólaði ég alla leið til Bolungarvíkur, en það var lengsti spottinn eða um 170 km. Svo var ég með mótvind mest allan tímann. Það hefði verið mun auðveldara að hjóla frá Bolungarvík til Reykjavíkur því þá hefði ég ekki verið með norðanáttina í fangið. Það var svo furðulegt að ég gat hjólað endalaust en svo þegar ég var kominn á leiðarenda gat ég varla gengið upp tröppur. Ég fékk alltaf smá auka kraft þegar á leið. Sérstaklega þegar ég var kominn á Óshlíðina þá virtust gömlu heimahagarnir gefa mér auka orku.“
Hávarður segir hugmyndina fyrst hafa komið upp í vinnunni. „Ég var að fara að fara kíkja vestur í sumarfrí og var ekki búinn að ákveða hvað ég ætti að gera skemmtilegt. Ég er að vinna með öðrum Vestfirðingi og sú hugmynd kom upp í vinnunni að hjóla vestur. Hann lagði af stað einum og hálfum sólarhring á undan mér ásamt félaga sínum, en ég var einn á ferð allan tímann.“