VR segir, að þessa dagana fái fjöldi félagsmanna að fá bréf frá skattayfirvöldum þar sem þeim er tilkynnt um breytingu á framtali þeirra og gerð krafa um skatt af styrkgreiðslum úr starfsmenntasjóðum. VR hvetur félagsmenn sína til að kæra slíka álagningu.
Á heimasíðu VR segir að félagið telji að námsstyrkir, sem nýtast til öflunar starfsréttinda, séu ekki skattskyldir. Vísar félagið í úrskurð yfirskattanefndar frá því fyrr í sumar en þá hnekkti nefndin ákvörðun skattstjóra sem hafði skattlagt styrk félagsmanns VR vegna flugnáms.
Í því máli færði félagsmaðurinn styrk, sem hann fékk úr Starfsmenntunarsjóði verslunar- og skrifstofufólks, sem tekjur og kostnað vegna námsins sem frádrátt á móti. Skatturinn hafnaði þessu á þeim forsendum að námið væri ekki starfstengt. Yfirskattanefnd hnekkti ákvörðun skattstjóra og úrskurðaði félagsmanninum í hag.
„Það er því kristaltært, að mati VR, að styrki úr starfsmenntasjóðum eigi ekki að skattleggja," segir á vef félagsins.
VR segir að áratugum saman hafi styrkir, sem félagið veitti félagsmönnum sínum, ekki verið skattlagðir en það sé nú breytt og skattayfirvöld gangi hart fram í að innheimta skatta af styrkjum. Nú þegar úrskurður yfirskattanefndar liggi fyrir komi það félaginu á óvart að enn skuli skattayfirvöld krefja félagsmenn um skatt.