Vítur á bæjarfulltrúa ólögmætar

Samgönguráðuneytið hefur fallist á kröfu Guðmundar G. Gunnarssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á Álftanesi, að vítur sem Kristján Sveinbjörnsson, forseti bæjarstjórnar, lét bóka á Guðmund á  bæjarstjórnarfundi í maí, hafi verið ólögmætar.

Kristján sagði á sínum tíma, að ástæða þess að hann lagði fram víturnar á Guðmund hafi verið sú að framganga Guðmundar væri óviðunandi. Hann skrifaði varla svo bréf eða grein eða héldi ræður um málefni bæjarfélagsins að stór hluti efnisins sé ósannur eða ærumeiðingar á einstakar persónur. Þessu vísaði Guðmundur til föðurhúsanna og sagðist myndu halda áfram að tjá sig um málefni bæjarfélagsins sem væri á kolrangri og dýrkeyptri braut.

Guðmundur sendi samgönguráðuneytinu stjórnsýslukæru þremur dögum eftir bæjarstjórnarfundinn og krafðist álits á því hvort víturnar stæðust lög. Kristján vísaði til ákvæðis í samþykktum um stjórn og fundarsköp Álftaness þar sem segir að forseti bæjarstjórnar skuli víta bæjarfulltrúa, sem beri aðra menn brigslum og svipta hann málfrelsi á bæjarstjórnarfundi við ítrekuð brot.

Ráðuneytið segir í úrskurðinum, að þetta ákvæði snúi að fundarstjórn forseta á fundum bæjarstjórnar en veiti honum ekki heimild til að bóka vítur á bæjarfulltrúa vegna tilvika sem átt hafi sér stað utan fundarins eða á öðrum fundum bæjarstjórnarinnar. Þá segir ráðuneytið einsýnt að beita verði þessu ákvæði með varúð og hefta ekki um of málfrelsi manna og rétt þeirra til að láta skoðanir í ljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert