Dagsetningin 08.08.'08, þ.e. næstkomandi föstudagur, er mjög vinsæl til brúðkaupa og ætlar fjöldi fólks að giftast þennan dag.
Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur í Grafarvogskirkju, telur að jafnvel fleiri pör verði gefin saman þennan dag en 7. júlí í fyrra, 07.07.'07. Hann mun vígja sjö pör á föstudaginn en tíu pör báðu um að vera gefin saman þennan dag.
„Ég byrja um hádegi og það síðasta er um kvöldið,“ segir Vigfús.
„Fólk bindur sig við einhverja gæfudaga eða daga sem það telur til heilla öðrum fremur,“ segir Gunnþór Þ. Ingason, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju, um ástæður þess að fólk vilji bindast hvað öðru á dögum sem þessum. Hann heldur þó að færri muni giftast 8. ágúst í ár en 7. júlí í fyrra.
Í sama streng tekur Þór Hauksson, sóknarprestur í Árbæjarkirkju, sem gefur fimm pör saman. Daginn telur Þór að mestu valinn til gamans en hefur þó heyrt að minnisleysi brúðguma gæti leikið hlutverk. „Eiginmennirnir muna frekar eftir brúðkaupsdeginum [08.08.'08],“ segir Þór og hlær.