Farþegar fengu ekki björgunarvesti

Ljóst er að reglur voru brotnar sl. sunnudag þegar fólk var flutt með hraðbát og síðan trillu til Vestmannaeyja án björgunarvesta, gegn greiðslu. Trillan sem flutti fólkið til Eyja hefur ekki leyfi til farþegaflutninga en fólkið greiddi 7.000 kr. fyrir ferðina.

„Þetta var tómt rugl, þetta var fólk sem þurfti nauðsynlega að komast til Eyja. Það borgar sig ekki að standa í þessu,“ segir viðmælandi Morgunblaðsins sem tók þátt í flutningunum. Eigandi bátanna tengist hvorki flugfélagi né öðrum sem flytja fólk til eyjanna.

„Við ætluðum með flugi frá Bakka til Vestmannaeyja á sunnudeginum. Klukkan var að verða fimm og það var búið að gefa það út að ekki yrði flogið eftir sex. Við fengum ábendingu um að bátur gæti sótt hópinn og ferjað okkur til Eyja,“ segir Helga Guðrún Lárusdóttir, einn farþeganna.

„Starfsmenn á Bakkaflugvelli keyrðu okkur því til ósa Markarfljóts þar sem við fórum 6-8 saman í lítinn gúmmíbát. Það var töluvert um öldugang og við fengum ekki björgunarvesti. Upphaflega áttum við að fara með gúmmíbátnum í átt að trillu sem átti síðan að flytja okkur til Eyja. Vélin gaf sig í litla bátnum og annar hraðbátur [Zodiac-bátur með hörðum botni] þurfti því að sækja okkur og ferja okkur milli gúmmíbátsins og trillunnar. Þar voru engin björgunarvesti heldur. Við þurftum því á hafi úti að stökkva um borð í hraðbátinn og eitthvað af farangrinum lenti tímabundið í sjónum.“

Engin björgunarvesti

Helga segir að hún og vinkonur hennar hafi orðið verulega hræddar þegar vél gúmmíbátsins stöðvaðist, enda miklar öldur. Þær hafi staðið í þeirri trú að þær fengju björgunarvesti í hraðbátnum, en það gerðist ekki. Hann fór hratt yfir og hún segir það hafa verið mjög óþægilega lífsreynslu, þar sem engin voru vestin.

Lögreglan ætti að taka málið til rannsóknar

„Öll skip í farþegaflutningum þurfa að hafa farþegaleyfi. Aðeins eitt skip hefur heimild til farþegaflutninga milli lands og Eyja, en það er Herjólfur. Það þarf björgunarvesti, gúmmíbjörgunarbát og annan öryggisbúnað í alla báta. Trillur eru ekki nýttar til farþegaflutninga og ekki hraðbátar heldur,“ segir Helgi Jóhannesson, forstöðumaður hjá Siglingastofnun. Að sögn Helga hefur Siglingastofnun ekki fengið þetta tiltekna mál inn á borð til sín, en ef lýsingin sé rétt eigi lögreglan að taka málið til rannsóknar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka