Félag ábyrgra foreldra á Akureyri hyggst standa fyrir táknrænum mótmælum í miðbæ Akureyrar á næstu dögum. Félagið vill með því mótmæla að barnalagafrumvarpi Daggar Pálsdóttur alþingiskonu hafi ekki verið afgreitt úr allsherjarnefnd síðastliðið vor.
Með mótmælunum vill félagið benda á að frumvarpið sitji enn fast hjá allsherjarnefnd.
Frumvarpið, sem Dögg mælti fyrir í nóvember sl., felur m.a. í sér að foreldrar geti samið um að lögheimili barns verði hjá þeim báðum. „Feður sætta sig ekki lengur við að vera óvirkir þátttakendur í lífi barna sinna þótt sambúð þeirra og mæðranna ljúki,“ sagði Dögg.
Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að ekki sé gefið upp að svo stöddu hvenær mótmælin muni fara fram. Það kemur hins vegar fram að mótmælin muni fara fram á óhefðbundinn hátt og standa yfir í 4 vikur samfleytt.