Grunaður um fjölda innbrota

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður, sem grunaður er um aðild að fjölda innbrota í hús á höfuðborgarsvæðinu í júní og júlí, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 22. ágúst.

Maðurinn var handtekinn í Garðabæ í júlí ásamt fjórum félögum sínum en þeir voru grunaðir um að hafa framið nokkur innbrot fyrr um daginn. Maðurinn var ásamt öðrum úrskurðaður í gæsluvarðhald og það hefur nú verið framlengt.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að mikið magn þýfis hafi fundist á dvalarstað hans og í bíl, sem tengir hann við innbrotin. Maðurinn hefur viðurkennt að eiga aðild að innbrotunum og hefur jafnframt lýst því yfir að hann framfleyti sér hér á landi með afbrotum og sölu á þýfi. Maðurinn er erlendur ríkisborgari og án atvinnu og hefur lítil tengsl við land og þjóð, að því er kemur fram í úrskurðinum.

Hæstiréttur hefur einnig staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður, sem nýlega var dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir fjölmörg afbrot, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 27. júní eða þar til áfrýjunarfresti lýkur. Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því í júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert