Breska lávarðadeildin hefur neitað að taka fyrir frávísunarkröfu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í meiðyrðamáli Jóns Ólafssonar, sem hann höfðaði gegn Hannesi í Bretlandi. Niðurstaðan fékkst í málinu í síðasta mánuði.
Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Hannesar, segir að enginn rökstuðningur hafi fylgt ákvörðuninni, heldur hafi aðeins verið tilkynnt að lávarðadeildin muni ekki taka málið fyrir. Lagalávarðarnir svonefndu eru efsta dómstig Bretlands.
„Tilraunum Hannesar til að fá málið skoðað á þann hátt sem hann taldi rétt að yrði gert þarna úti er þá lokið,“ segir Heimir spurður út í það hvað þetta þýði. Nú sé það undir Jóni Ólafssyni komið hvað hann geri.
Reiðubúinn að ljúka málinu
„Ég er tilbúinn að láta hér við sitja ef Hannes borgar það sem þetta hefur kostað, og það sem hann átti að borga úr hinum dóminum. Þar með yrði málið bara búið,“ segir Jón Ólafsson í samtali við mbl.is. Ekki liggur fyrir um hve háar fjárhæðir er að ræða.
Jón segist ekki hafa heyrt neitt frá sínum lögfræðingum varðandi málið, en kveðst fagna því ef þetta leiði til þess að það megi ljúka málinu í eitt skipti fyrir öll.
Jón höfðaði meiðyrðamál upphaflega gegn Hannesi í Bretlandi. Árið 2005 dæmdi enskur dómstóll Hannes til að greiða Jóni Ólafssyni 11 milljónir kr. í bætur vegna ummæla sem Hannes lét falla á ráðstefnu norrænna blaðamanna í Reykholti í október 1999 og birti síðan á heimasíðu sinni.
Í framhaldinu krafðist Jón fullnustu dómsins á Íslandi og að gert yrði fjárnám hjá Hannesi. Hannes brást við með að gera þá kröfu fyrir dómi að fjárnámið yrði fellt niður og samhliða leitaði Hannes eftir viðurkenningu breskra dómstóla eftir því að dómurinn yrði gerður ógildur.
Breskir dómstólar féllust á þetta og var því upphaflegi dómurinn felldur úr gildi.
Þegar breski dómarinn felldi upphaflega dóminn úr gildi mælti hann svo fyrir að Jón væri undanþeginn þeirri skyldu, sem annars hvílir á mönnum, að birta stefnu fyrir Hannesi svo hann gæti haldið áfram með málið.