Lögmaður bónda í Nesjum í Hornafirði, sem sakaður var um sauðaþjófnað, segir að ríkissaksóknari hafi staðfest ákvörðun lögreglureglustjórans á Eskifirði um að fella málið niður.
Í tilkynningu, sem Karl Axelsson, lögmaður, hefur sent frá sér, segir að umbjóðandi hans sé meðal stærstu fjárbænda landsins. Vegna kærunnar hafi verið gerð fyrirvaralaus húsleit í fjárhúsi hans fjórum dögum fyrir síðustu jól. Í þeirri húsleit hafi ekkert komið fram, sem veitti minnstu vísbendingar um að ásakanir um sauðaþjófnað ættu við rök að styðjast. Eftir að hafa rannsakað málið felldi lögreglustjórinn á Eskifirði málið niður og ríkissaksóknari staðfesti þá ákvörðun nú í júnímánuði.
„Umbjóðandi minn fagnar því að hafa verið hreinsaður af hinum tilhæfulausu ásökunum sem tekið hafa mjög á hann og fjölskyldu hans. Áburður um sauðaþjófnað er meðal alvarlegustu ásakana sem hægt er að bera nokkrum fjáreiganda á brýn. Með kærunni var gerð tilraun til þess að hafa æruna af umbjóðanda mínum," segir m.a. í tilkynningu Karls.