Sofandi í umferðinni

Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn í miðborginni aðfararnótt laugardags þar sem hann sat steinsofandi í ökumannsæti bifreiðar við umferðarljós. Í ljós kom að maðurinn var ölvaður.

Að sögn lögreglu var maðurinn sofandi í bifreiðinni með vélina í gangi á gatnamótum Hafnarstrætis og Lækjargötu. Bifreiðin færðist ekki úr stað þegar grænt ljós kviknaði á umferðarljósum fyrir hans akstursstefnu. Það vakti grunsemdir vegfarenda sem kölluðu til lögreglu. Þegar að var komið reyndist maðurinn steinsofandi en bíllinn var í gangi.  Hinn þreytti ökumaður, sem var einn í bílnum, var vakinn og færður á lögreglustöð en hann reyndist jafnframt vera ölvaður, sem fyrr segir.

Aðfaranótt mánudags var lögreglan aftur kölluð til þegar annar þreyttur ökumaður, sömuleiðis karlmaður en nokkuð eldri, hætti sér út í umferðina. Ökuferð hans lauk í Vogahverfinu en þar lenti maðurinn í umferðaróhappi. Lítið var um svör þegar ökumaðurinn, sem var ódrukkinn, var spurður um óhappið en hann var klæddur í náttföt og hefði því betur verið heima í rúminu heldur en úti að aka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert