Neytendasamtökin hvetja innlenda matvælaframleiðendur til að skipta út svokölluðum asó-litarefnum hið fyrsta, en samtökin benda á að rannsóknir hafi sýnt að samhengi sé á milli neyslu efnanna og ofvirkni, einbeitingarskorts og annarra hegðunarvandamála hjá börnum. Einnig er þekkt að efnin geta valdið ofnæmiseinkennum. <
Samtökin sendu nýlega bréf til Samtaka iðnaðarins og hvöttu innlenda
framleiðendur til að skipta efnunum út fyrir önnur öruggari líkt og
margir framleiðendur í Evrópu hafa þegar gert.
Samkvæmt nýjum reglum Evrópusambandsins verður framleiðendum innan
tíðar skylt að merkja matvæli sem innihalda litarefnin E102, E104,
E110, E122, E124 og E129 með varúðarmerkingunni; Getur haft óæskileg áhrif á hegðun og einbeitingu barna. Neytendasamtökin telja hins vegar að vörur sem seldar séu með slíkri viðvörun eigi einfaldlega ekki erindi á
markað.
Minnt er á að efnin voru bönnuð á Íslandi
til ársins 1997 þannig að framleiðendur ættu að hafa reynslu af því að
nota önnur og öruggari litarefni.