Lögreglan á Suðurnesjum innsiglaði nú síðdegis Júlíönu Guðrúnu SE, bátinn sem Ásmundur Jóhannsson hefur ítrekað farið í veiðiferðir á frá Sandgerði þrátt fyrir að kvótann skorti.
Landhelgisgæslan kom í dag að bátnum norðvestur af Garðskaga. Fóru starfsmenn Landhelgisgæslunnar um borð í bátinn og sigldu honum í land þar sem lögregla beið. Er þetta í þriðja skiptið sem höfð hafa verið afskipti af bátnum en í gær beið lögregla m.a. á bryggjunni þegar báturinn kom til hafnar úr veiðiferð.
Ásmundur vill með þessum veiðiferðum mótmæla íslenska veiðistjórnunarkerfinu, sem hann segir brot á atvinnufrelsi sínu og mannréttindum. Hann hefur lýst því yfir að hann sé tilbúinn til að fara með mál sitt fyrir mannréttindadómstól Evrópu ef með þarf, en hann hefur þegar verið kærður fyrir athæfið.