Byggt við Korpuskóla

Frá fundinum í kvöld.
Frá fundinum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Foreldraráð Korpuskóla samþykkti á fjölmennum fundi í kvöld ályktun foreldraráðs sem unnin var í samstarfi við menntaráð Reykjavíkur. Ályktunin byggir á lausn sem formaður menntaráðs, Júlíus Vífill Ingvarsson, kynnti og hefur unnið að á undanförnum dögum. Í henni felst að byggt verður við Korpuskóla og að viðbyggingin verður tekin í notkun við upphaf skólaárs 2010. 

Mörg börn hafa fundið fyrir óþægindum eftir dvöl í heilsuspillandi bráðabirgðakennslustofum við Korpuskóla, en þar hefur greinst myglusveppur.

Í ályktuninni kemur fram að kennslustofurnar verða teknar úr notkun og á að meðan framkvæmdir séu í gangi við gerð viðbyggingarinnar skuli skólabörnin sækja nám í Víkurskóla. Boðið verður upp á skólaakstur fyrir þá nemendur sem þurfa að sækja nám í Víkurskóla, en ekið verður frá skólalóð Korpuskóla.

Jafnframt kemur fram að leita skuli til opinberra aðila um að framkvæma og kosta lögmæta sýnatöku, sem ekki verði hægt að véfengja fyrir dómstólum, til að þeir foreldrar sem þess óska geti leitað réttar síns, telji þeir að heilsutjón eða annar skaði hafi orðið af viðvöru í sýktu bráðabirgðahúsnæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert