Við reglubundið innra eftirlit á bæjarskrifstofum Garðabæjar kom í ljós að fjármálastjóri bæjarins hefur ráðstafað með óheimiluðum hætti í persónulega þágu 9,2 milljónum króna á nokkurra mánaða tímabili.
Bæjarstjóri Garðabæjar segir í yfirlýsingu, sem hann hefur birt á vef bæjarins, að fjármálastjórinn hafi gengist við því að um óheimila ráðstöfun hafi verið að ræða og þegar látið af störfum. Hann hafi þegar undirritað greiðslutryggingu til Garðabæjar vegna máls þessa.
Fram kemur, að málið verði tilkynnt til réttra yfirvalda.