Kröfu um áframhaldandi nálgunarbann hafnað

Hæstiréttur hefur staðfest þá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna því karlmaður þurfi að sæta áframhaldandi nálgunarbanni. Að sögn lögreglu er verið að rannsaka meint kynferðis- og ofbeldisbrot sem maðurinn er talinn hafa framið gegn fyrrum sambýliskonu sinni. Maðurinn sat um tíma í gæsluvarðhaldi og var síðan úrskurðaður í hálfs árs nálgunarbann gagnvart konunni en það bann er nú runnið út.

Fram kemur í greinargerð lögreglu að talið hafi verið, að rannsókn málsins yrði lokið innan þess frests, sem upphaflega nálgunarbannið tók til. Af því hafi ekki orðið nauðsynlegt hafi verið að taka skýrslur af erlendum vitnum, m.a. í Danmörku og í Noregi, en konan og maðurinn bjuggu um tíma í Noregi. Þá var ákæru á hendur manninum vegna líkamsárásar vísað frá dómi í apríl vegna annmarka. Því hafi konan óskað eftir framlengingu kröfunnar. Þyki lögreglu full ástæða til að ætla að nálgunarbann hafi mikla þýðingu fyrir konuna. 

Héraðsdómur taldi hins vegar að ekki lægi fyrir rökstudd ástæða til að ætla að maðurinn muni fremja afbrot gagnvart konunni eða raska á annan hátt friði hennar. Undir þetta tóku tveir af þremur hæstaréttardómurum, sem fjölluðu um málið.

Einn dómari, Páll Hreinsson, vildi hins vegar fallast á kröfu lögreglu um að nálgunarbannið yrði framlengt um 3 mánuði. Vísaði hann m.a. til þess, að  áverkar á konunni voru meðal annars rifbeinsbrot, sprungin hljóðhimna og auk þess hafi hún verið með fjölda marbletta víðsvegar um líkamann.

Einnig vísar Páll til þess, að verið sé að rannsaka ætluð kynferðisbrot mannsins gegn konunni, sem að hennar sögn hafi staðið yfir um langt skeið. Felist brotin að hennar sögn í því að maðurinn hafi neytt hana til ýmissa kynferðismaka, bæði með honum og með ókunnugum mönnum og hafi maðurinn tekið atburðina upp á myndband. Hafi maðurinn stýrt því sem gert var og gefið fyrirmæli sem hún hafi ekki þorað annað en að hlýða þar sem neitun hennar hafi leitt til þess að maðurinn beitti hana ofbeldi.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert