Má taka allt með sér inn?

Lektor í skattarétti við Háskóla Íslands telur að álit umboðsmanns Alþingis hafi væntanlega í för með sér að ferðamenn megi koma með eins mikið til landsins og þeir vilja, allt tollfrjálst. Í álitinu, sem kom út fyrir skömmu, sagði að ákvæði tollalaga þar sem fjármálaráðherra var falið að ákvarða inntak og umfang tollfrelsis ferða- og farmanna væri of víðtækt og stangaðist á við stjórnarskrá.

Mátt koma með það sem þú vilt

Hið umdeilda lagaákvæði er að finna í 6. gr. tollalaga nr. 88/2005. Þar kemur m.a. fram að ferðamenn megi taka með sér, tollfrjálst, varning frá útlöndum að tilteknu hámarki sem ráðherra ákveður í reglugerð. Að mati umboðsmanns er það sá hluti ákvæðisins sem kveður á um að ráðherra segi til um hámarkið sem brýtur gegn stjórnarskránni.

„Meginreglan er að allt sem flutt er til landsins er skattskylt. Síðan erum við með undantekningar frá því sem felast í venjulegum farangri. Síðan til viðbótar því má taka með sér varning sem er keyptur í tollfrjálsri verslun. Umboðsmaður er búinn að segja að stjórnvöld megi ekki ákvarða hámarkið, sem þýðir væntanlega það að ferðamaður má koma með það sem hann vill,“ útskýrir Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti við lagadeild Háskóla Íslands, og á þá við að allt sem farþegi hafi með sér sé tollfrjálst. „Umboðsmaður er ekki að segja að lagaheimildin um leyfi til að flytja inn tollfrjálsan varning standist ekki stjórnarskrá heldur er það bara hámarkið [sem stenst ekki stjórnarskrána].“

Kristján tekur þó fram að álit umboðsmanns stangist í meginatriðum á við dóm Hæstaréttar í máli númer 356/1999, þar sem framsal skattlagningarvalds til stjórnvalda var talið standast stjórnarskrána. Því sé óljóst hvað dómstólar geri fái þeir málið á sitt borð, en ekki sé spurning að álit umboðsmanns hafi mikið vægi og beri stjórnvöldum að fara eftir þeim.

Farmenn kvörtuðu

Þrír farmenn kvörtuðu upphaflega til umboðsmanns vegna reglugerðarinnar um meðferð vara sem ferðamenn og farmenn koma með með sér til landsins. Laut kvörtunin m.a. að því að farþegum væri heimilaður innflutningur á mun meira verðmæti og magni en farmönnum án greiðslu aðflutningsgjalda. Vegna niðurstöðunnar um lagaheimild reglugerðar var ákveðið að taka ekki athugasemdir þeirra til skoðunar.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu stendur til að endurskoða lagastoð reglugerðarinnar í haust. Þá hefur tollstjórinn á Suðurnesjum ekki breytt framkvæmd sinni frá því sem áður var og er enn farið eftir reglugerðinni umdeildu.

Eðlilegast að löggjafinn setji mörkin

Reglugerðinni var breytt nýlega af fjármálaráðherra til að láta krónutölurnar standast vísitöluhækkun síðustu ára. Ljóst er þó að ef fólk má taka eins mikið áfengi og eins mikinn varning með sér inn í landið og það vill kann hagur neytenda að vænkast verulega umfram þessar breytingar ráðherra. Þeir gætu ferðast til annarra landa, keypt vörur mun ódýrar en hér heima og flutt með sér heim.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, segir aðspurður að neytendapólitískt sé skynsamlegt að löggjafinn ákveði hvaða mörk eigi að vera til að tryggja samkeppni við innanlandsverslun.

„Ég get ekki ráðlagt [mönnum] að hunsa þetta enda eru þá væntanlega ákveðin refsiviðurlög yfirvofandi. En ef aftur þeir vilja standa á rétti sínum og láta á þetta reyna og verða fyrir tjóni við upptöku eða eitthvað slíkt, þá er hugsanlegt að skaðabótaskylda vofi yfir ríkinu,“ segir Gísli, „Ef enginn lætur á þetta reyna bíður samkeppni og hagsmunir neytenda hnekki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert