Olíuhreinsistöð: Umhverfismat er næsta skref

Olíuhreinsistöð í Ástralíu.
Olíuhreinsistöð í Ástralíu.

„Það er verið að vinna markvisst að málinu ytra þar sem næsti áfangi liggur, en það hefur tekið svolítið lengri tíma en björtustu vonir stóðu til,“ segir Ólafur Egilsson, stjórnarformaður Íslensks hátækniiðnaðar, sem hefur hug á því að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.

Ólafur segir gott hljóð í samstarfsaðilum fyrirtækisins í Rússlandi en að ekki sé hægt að tímasetja hvenær næsta skref verði stigið. Það yrði væntanlega umhverfismat á framkvæmdinni. „Næsta skref yrði væntanlega umhverfismat en af því að þetta er ekki á okkar valdi þá vil ég ekki tímasetja það. Við ýtum á og vonum að þetta gerist sem allra fyrst.Vegna þess að þetta eru það stórir aðilar og málið umfangsmikið þá tekur þetta lengri tíma. Það eru fleiri sem koma að ákvörðuninni og ferlið er svolítið flóknara en við þekkjum hér í okkar þjóðfélagi.“

Hvesta þótti hentugri

Erlendi samstarfsaðili Íslensks hátækniiðnaðar heitir Katamak-Nafta og er dótturfyrirtæki Geostream. 24 stundir sögðu frá því í apríl að meðal helstu samstarfsaðila Geostream eru stærstu olíufélög Rússlands, Gazprom og Lukoil, ásamt vestrænu olíurisunum Shell og Exxon Mobil.

Á heimasíðu Katamak-Nafta kemur fram að félagið hafi valið Ísland sem stað fyrir olíuhreinsistöð vegna þess að hér sé orkukostnaður afar lágur, landfræðileg staðsetning landsins henti vel og að hér sé hagstætt fjárfestingarumhverfi. Þá er það talið til kosta að flestar ákvarðanir vegna framkvæmdarinnar liggi hjá sveitarstjórnum og ákvörðunarferlið geti því gengið hratt fyrir sig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert