Skipt um fulltrúa í skipulagsráði

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag tillögu frá Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra, um að Magnús Skúlason taki við af Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur sem fulltrúi F-lista í skipulagsráði borgarinnar.

Samkvæmt tillögunni var tekur Sigurður Þórðarson við af Ólöfu Guðnýju í varastjórn Faxaflóahafna. Tillagan var samþykkt með 4 atkvæðum meirihluta Sjálfstæðisflokks og F-lista en þrír fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Ólafur lagði fram bókun á fundinum þar sem hann segir að með  ólíkindum sé  að minnihlutinn í borgarstjórn reyni að gera kosningu fulltrúa í nefndum á vegum F-listans tortryggilega. Fullkomlega málefnaleg rök séu fyrir því að kjósa nýja fulltrúa í þeim tveim nefndum sem um ræðir.

„Í skipulagsráði  eru til umfjöllunar  veigamikil og stefnumótandi mál sem eru grundvöllur að málefnasamningi F lista og Sjálfstæðisflokks. Í því ljósi er afar mikilvægt að þeir sem sitja í umboði meirihlutans njóti fullkomins pólitísks trúnaðar.

Viðkomandi fulltrúi hefur ekki starfað með F listanum að undanförnu. Nauðsynlegt samstarf og samráð milli fulltrúans og þess framboðs sem hann situr í umboði fyrir er þannig ekki fyrir hendi," segir í bókun Ólafs.

Fulltrúar minnihlutans í borgarráði lögðu einnig fram bókun þar sem segir, að borgarstjóri hafi orðið ber að fordæmislausri framkomu gagnvart fyrrverandi samherja og aðstoðarmanni sínum fyrir þær sakir einar að bíða með yfirlýsingar í viðkvæmu skipulagsmáli þar til fagleg úrvinnsla þess hefði farið fram í skipulagsráði.

„Með þessari ómálefnalegu framgöngu hefur borgarstjóri jafnframt vakið umræðu um ákvæði sveitarstjórnarlaga um skilyrði þess að víkja kjörnu nefndarfólki til hliðar gegn vilja þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn verður að axla ábyrgð á þessu einsog öðru," segir í bókun minnihlutans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert