Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu telur rétt, að senda að nýju til umsagnar, umsóknir rekstarfélaga nektarstaðanna Óðals og Vegas, um undanþágu frá banni við nektarsýningum.
Í bréfum frá lögreglustjóraembættinu, sem borgarráð fjallaði um í dag, er vísað til stjórnsýsluúrskurðar dómsmálaráðuneytisins, sem felldi úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um að synja veitingastaðnum Goldfinger um undanþágu frá nektarsýningabanni. Taldi dómsmálaráðuneytið m.a., að þau sjónarmið, sem lögreglustjóraembættið setti fram og sýslumannsembættið byggði á, væru haldin verulegum annmörkum.
Borgarráð fjallaði á síðasta ári um umsóknir Óðals og Vegas um undanþágu frá nektarsýningabanni. Lagðist ráðið gegn því og vísaði m.a. til umsagnar lögreglustjóraembættisins um Goldfinger. Hins vegar var ákveðið að fresta afgreiðslu umsóknanna þar sem Goldfingermálið hafði verið kært til dómsmálaráðuneytisins. Fengu staðirnir á meðan bráðabirgðaleyfi á grundvelli eldra leyfis.