Vill stefnu til 12 ára

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, auglýsir eftir stefnu stjórnvalda vegna gróðurhúsaáhrifa til næstu tólf ára og segir ekki nægjanlegt að setja fögur markmið sem eigi að nást eftir að núverandi ráðamenn séu komnir undir græna torfu.

Hann segir skýrslu vsindanefndar um loftslagsbreytingar á Íslandi gefa til kynna að hér verði allt annar heimur en Íslendingar hafi vanist. Það þýði ekkert að setja fram stefnu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir miðja þessa öld. Ísland þurfi að setja fram skýra stefnu um hvað stjórnvöld hyggist gera næstu árin.

Árni segir að enn sé mörgum spurningum ósvarað varðandi áhrif hlýnunar á lífríki sjávar við Ísland. Menn viti ekki hversu hratt þetta gerist. Hundrað þúsund tonn af makríl í íslenskri lögsögu hafi komið mönnum í opna skjöldu. Menn hljóti að spyrja sig hvað gerist næst.  Til að mynda hvort lundastofninn hrynji? 

Árni segir að það vanti að rannsaka áhrifin á þorskstofninn, loðnustofninn og síldarstofninn. Menn þurfi að huga að því hvort Íslendingar verði sama fiskveiðiþjóðin árið 2100 og þeir eru núna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert