Vímuefnasjúklingar á götunni

Fulltrúi Vinstri grænna í borgaráði vill slíta viðræðum við Heilsuverndarstöðina/ Alhjúkrun um búsetuúrræði fyrir 20 einstaklinga í vímuefnavanda og að gengið verði til samninga við SÁÁ sem hafi yfir að ráða lóð við meðferðarheimilið Vík á Kjalarnesi.

Eitt og hálft ár síðan Byrgið var lagt niður og skjólstæðingar þess lentu á götunni . Ríkið samdi við Velferðarráð borgarinnar um að leysa vanda þessa fólks. Velferðarráð ákvað í apríl að ganga til viðræðna við Heilsuverndarstöðina sem bauð um fjórðungi hærra en SÁÁ. Fram kom í rökstuðningi að tilboðið væri hentugra vegna þess að Heilsuverndarstöðin  hefði til umráða  tilbúið húsnæði í Norðlingaholti.

Sparisjóðurinn Byr hefur nú leyst til sín húsnæðið en eigandi þess, fyrirtækið Í skilum ehf., var  tekið til gjaldþrotaskipta skömmu eftir að tilboðinu var tekið. 

Tillögu VG var í dag vísað til velferðarráðs en það á fund síðar í mánuðinum.  Jórunn Frímannsdóttir formaður ráðsins, segist enn telja að hagkvæmasta tilboði hafi verið tekið. SÁÁ hafi haft lóð en ekki tilbúið húsnæði.

Hún segir að reynt verði til þrautar að leysa málið í samvinnu við Heilsuverndarstöðina en ekki sé hægt að fullyrða um hvernig málinu ljúki. 

Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi segir hinsvegar til skammar hvað málið hafi dregist. Þegar séu nokkrir skjólstæðingar Byrgisins dánir.  Málið snúist um líf veikra einstaklinga en ekki æru einstakra stjórnmálamanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert