Tíu laxar úr Jöklu

Veiðiverðir og veiðimenn hafa verið duglegir að kanna nýja veiðistaði …
Veiðiverðir og veiðimenn hafa verið duglegir að kanna nýja veiðistaði á neðra veiðisvæði Jökulsár á Dal. Hér eru menn að veiðum uppi í Kaldá, einni af þverám Jöklu í Jökulsárhlíð. mbl.is/Helgi Bjarnason

Lax er byrjaður að veiðast í Jökulsá á Dal. Er þetta fyrsta alvöru laxveiðin í ánni sjálfri. Enn sem komið er hefur veiðin eingöngu verið í neðsta hluta árinnar. Lítið hefur verið reynt á Jökuldal en menn eru ekki úrkula vonar um að lax finnist þar áður en jökulvatn fer að flæða í hana á yfirfalli Kárahnjúkastíflu, en Landsvirkjun áætlar að það gerist um miðja næstu viku.

Um 40 laxar höfðu í gær veiðst á vatnasvæði Jöklu, þar af 10 úr Jöklu sjálfri, allir neðan brúar á Hringvegi. Skilyrði sköpuðust til veiða í Jöklu eftir að Kárahnjúkastífla var byggð enda áin að mestu tær bergvatnsá eftir það. Veiðiþjónustan Strengir tók ána á leigu og hefur verið að sleppa seiðum til að auka laxgengd en náttúrulegir laxastofnar eru auk þess í hliðarám.

Fallegir veiðistaðir

Laxveiði hefur lengi verið í þverám Jökulsár en lítil í ánni sjálfri, eins og gefur að skilja. Skúli Björn Gunnarsson, sem ólst upp á bökkum árinnar, segir að lax hafi stundum veiðst í net á vatnaskilum, þar sem lækir renna út í ána. Hann hefur sett í laxa þar í sumar og veiddi einn á flugu og segir að þarna séu margir fallegir veiðistaðir.

Að sögn Skúla eru sögur til af laxveiðum á Jökuldal en þær hafa ekki verið staðfestar. Þar veiðist hins vegar bleikja sem hann telur að sé komin úr vötnum frammi á heiði. Skúli Björn getur ekki frekar en aðrir svarað því hvort þrengingar í Jökulsá, ofan við brúna á Hringveginum, hamli því enn að lax gangi upp á Jökuldal, segir að reynslan verði að skera úr um það.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert