Lögreglan á Sauðárkróki þurfti að beita varnarúða í nótt gegn tveimur mönnum en þar hefur sjaldan þurft að beita slíku úrræði. Annar maðurinn hafði brotið rúðu í bíl og unnið önnur skemmdarverk á honum. Þegar lögreglan ætlaði að hafa afskipti af honum mætti bróðir mannsins og snerust þeir saman til varnar gegn lögreglunni.
Veittu mennirnir mótspyrnu við handtöku og þurfti þá að grípa til varnarúðans til að yfirbuga þá. Bræðurnir gistu fangageymslur lögreglunnar í nótt og voru þeir yfirheyrðir laust fyrir hádegi. Grunur leikur á að mennirnir hafi verið ölvaðir en þeir eru á þrítugsaldri.