Vísbendingar eru um að mögulega hafi stuðningur við jafnrétti kynjanna inni á heimilinu og á vinnumarkaði náð hámarki sínu í Bandaríkjunum og í Bretlandi og nú kunni að halla undan fæti. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar, sem unnin var á vegum Cambridge-háskóla í Bretlandi. Frétt um könnunina hefur verið birt á vef VR.
Könnunin sýnir ekki að jafnréttisbaráttan sem slík eigi undir högg að sækja en niðurstöðurnar virðast hins vegar benda til þess að vaxandi stuðningur sé við gamaldags hugmyndir um að staða konunnar sé innan veggja heimilisins, ekki á vinnumarkaðnum.
Jacqueline Scott, prófessor við Cambridge-háskóla og höfundur könnunarinnar, segir að viðhorf til stöðu kvenna á vinnumarkaði og á heimili virðist vera á þann veg að aukin atvinnuþátttaka kvenna sé á kostnað bæði konunnar sjálfrar og fjölskyldu hennar. „Það kann að vera að viðhorf hafi breyst nú þegar mesti sjarminnn er farinn af súpermömmunni og draumurinn um framakonuna, sem jafnframt bakar smákökur og les fyrir börnin á kvöldin, er utan seilingar að mati venjulegs fólks,“ segir hún.
Jafnréttishugsjónin á sér lengri sögu í Bandaríkjunum og Bretlandi en víða annars staðar. Þar virðist nú hins vegar gæta aukinna efasemda. Um miðjan tíunda áratuginn töldu um 50% kvenna og 51% karla í Bretlandi að atvinnuþátttaka konunnar myndi ekki bitna á fjölskyldunni. Nú eru þessar tölur 46% meðal kvenna og 42% meðal karla. Breytingarnar eru jafnvel enn meiri í Bandaríkjunum. Árið 1994 töldu 51% að atvinnuþátttaka konunnar myndi ekki bitna á fjölskyldunni en árið 2002 var hlutfallið komið niður í 38%.
„Ég spyr hvar karlarnir eru í þessu samhengi. Forsenda fjölskylduvæns samfélags er jafnrétti inni á heimilum,“ segir Drífa Snædal, framkvæmdastýra Vinstri grænna.