Hvetur keppendur til mótmæla á ÓL

Tsewang Namgyal.
Tsewang Namgyal. mbl.is/Golli

„Ég hvatti íslensku ólympíukeppendurnar til að nýta mál- og skoðanafrelsi sitt til þess að mótmæla harðstjórninni í Kína og meðferð hennar á Tíbetum, en það gæti reynst erfitt, því allir keppendur voru látnir skrifa undir samning þess efnis að ekki mætti með nokkrum hætti gagnrýna kínversk stjórnvöld, eða hafa uppi einhverskonar áróður fyrir hönd Tíbet á leikunum,“ segir Tsewang Namgyal, tíbeskur munkur sem býr hér á landi.

Hægara sagt en gert

Aðspurður hvort einhver íslensku keppendanna ætlaði sér að fara að ráðum hans, sagði Tsewang svo ekki vera. „En ef svo væri myndi ég ekki segja frá því, þeirra vegna.“

Fréttir af ritskoðun kínverskra stjórnvalda á fjölmiðlum vegna leikanna hafa borist víða. Tsewang fullyrðir að íslensku keppendurnir hafi verið látnir skrifa undir samning þar sem keppendur skuldbinda sig til að ögra ekki kínverskum stjórnvöldum með neinum hætti. „Þeir mega ekki blogga um tiltekna hluti, fara á tilteknar heimasíður né ræða málefni Tíbets opinberlega, sem stangast klárlega á við mál- og skoðanafrelsi einstaklinga.“

Ekki frá Kína komið

Líney Rut Halldórsdóttir er framkvæmdastjóri íslenska Íþrótta- og ólympíusambandsins. Hún segir alla keppendur vissulega hafa undirritað samning, en hann sé ekki frá kínverskum stjórnvöldum kominn. „Þetta er sama plagg og keppendur hafa þurft að skrifa undir fyrir aðra Ólympíuleika og fjallar um að allir þurfi að fara eftir Ólympíusáttmálanum og skuldbinda sig til þess að fara eftir ákveðnum reglum er varða verðlaunapallinn, lyfjaeftirlit, keppnisbúninga og annað slíkt,“ segir Líney en í þeim samningi er kveðið á um merkingu fatnaðar keppenda, þar sem enginn áróður né auglýsingar mega koma fram.

Tilvalinn vettvangur

„Leikarnir eru hluti af lífinu, líkt og pólitík. Tíbetar líta svo á að allt sé samofið og það er ekki hægt að líta framhjá illgerðum af hentisemi,“ sagði Tsewang að lokum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert