„Ég hvatti íslensku ólympíukeppendurnar til að nýta mál- og skoðanafrelsi sitt til þess að mótmæla harðstjórninni í Kína og meðferð hennar á Tíbetum, en það gæti reynst erfitt, því allir keppendur voru látnir skrifa undir samning þess efnis að ekki mætti með nokkrum hætti gagnrýna kínversk stjórnvöld, eða hafa uppi einhverskonar áróður fyrir hönd Tíbet á leikunum,“ segir Tsewang Namgyal, tíbeskur munkur sem býr hér á landi.
Fréttir af ritskoðun kínverskra stjórnvalda á fjölmiðlum vegna leikanna hafa borist víða. Tsewang fullyrðir að íslensku keppendurnir hafi verið látnir skrifa undir samning þar sem keppendur skuldbinda sig til að ögra ekki kínverskum stjórnvöldum með neinum hætti. „Þeir mega ekki blogga um tiltekna hluti, fara á tilteknar heimasíður né ræða málefni Tíbets opinberlega, sem stangast klárlega á við mál- og skoðanafrelsi einstaklinga.“