Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, taka vel í hugmynd Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands, um að forystumenn vinnumarkaðarins vinni saman að því að huga að lausnum efnahagsvandans.
Gylfi segir að góð samskipti vinnumarkaðarins og stjórnvalda skapi Íslendingum betri tækifæri til að taka á svona vanda en þegnum flestra ríkja heims. „Við áttum okkur ekki á því hvaða auðlind felst í nálægðinni á Íslandi,“ segir hann.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segir rétt að frumkvæðið að þjóðarsátt komi frá aðilum vinnumarkaðarins þar sem forsendur kjarasamninga séu að bresta. Þeir komi þó ekki til endurskoðunar fyrr en í febrúar en hugsanlegt sé að stjórnvöld komi þar að fyrir þann tíma.