Betur fór en á horfðist þegar franskur ferðamaður á fimmtugsaldri ók bíl sínum niður í Jökulsá á Dal um sjöleytið í gærkvöldi. Svo virðist sem maðurinn hafi misst stjórn á bifreið sinni í krappri beygju skammt frá brúnni við bæinn Brú á Jökuldal með þeim afleiðingum að hún féll um átta metra niður að vatnsborðinu og sökk síðan í sex til átta metra djúpan hyl.
Ökumaður braut sér leið út úr bílnum og náði að synda að klettasyllu undir brúnni.
Hjón sem áttu leið um svæðið tóku eftir að bakpokar voru á floti í ánni. Þau stöðvuðu för sína og heyrðu þá hjálparkall mannsins undan brúnni. Fólkið færði hann á nálægan bæ, en hann var orðinn nokkuð kaldur eftir volkið. Að sögn heilsast honum nú bærilega.