Lækka þarf hámarkshraðann

Jeppi kastaðist framan á rútuna. Starfsmaður um borð í henni …
Jeppi kastaðist framan á rútuna. Starfsmaður um borð í henni slasaðist. mbl.is/Júlíus

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður í Árnessýslu, segir nauðsynlegt að lækka hámarkshraðann á Suðurlandsvegi á milli Selfoss og Hveragerðis úr 90 í sjötíu. Horfast verði í augu við það að vegurinn þoli ekki þann hraða sem þar sé nú leyfður.

„Þetta er engin skyndihugdetta. Ég hef lengi haft hugmyndir um þetta, en ekki talið við hæfi að viðra þær. En ég er víst búinn að missa þetta út úr mér núna,“ sagði Ólafur, sem er á vettvangi þriggja bíla áreksturs sem varð á veginum í morgun.

Þrír voru fluttir á sjúkrahús eftir að sendibíll, jeppi og rúta rákust saman, ökumenn minni bílanna tveggja og starfsmaður í rútunni. Áreksturinn mun hafa orðið með þeim hætti að sendibíllinn lenti aftan á jeppanum sem kastaðist þá á rútuna, sem kom á móti.

Ólafur segir að það hafi komið vel í ljós, þegar hámarkshraði var lækkaður á vegakafla frá Biskupstungnavegamótum út fyrir Kögunarhól, er skemmdist í jarðskjálftanum í sumar, að umferðin á þeim kafla hafi strax fengið annan brag.

Ólafur sagði ennfremur: „Við verðum að láta vegfarendur á þessum vegarkafla njóta vafans. Við getum ekki tekið áhættuna aftur og aftur. Við verðum að læra af reynslunni og lækka hámarkshraðann."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka