Félags- og tryggingamálaráðherra hefur kynnt framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu til ársins 2012. Áætlunin gerir ráð fyrir 400 nýjum hjúkrunarrýmum sem er viðbót við þau hjúkrunarrými sem nú eru í notkun. Auk þess er gert ráð fyrir 380 rýmum til að breyta fjölbýlum í einbýli.
Allt að 15% af heildarfjölda hjúkrunarrýma verða nýtt til hvíldarinnlagna til stuðnings við aldraða í heimahúsum og aðstandendur þeirra. Þá er gert ráð fyrir hærra hlutfalli hjúkrunarrýma fyrir heilabilaða í samræmi við vaxandi þörf.
Samhliða áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma, sem kynnt var í dag, hefur að undanförnu verið unnið í félags- og tryggingamálaráðuneytinu að mótun stefnu um heildstæða öldrunarþjónustu, í samvinnu við hagsmunaaðila og fagfólk í öldrunarþjónustu.
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu hjúkrunarheimila sem einnig var kynnt í dag, kemur fram að á næstunni verður unnið að margvíslegum verkefnum til að styrkja og efla öldrunarþjónustu í landinu. Heilbrigðisráðuneytið mun áfram vinna að áætlun um uppbyggingu samþættrar heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu í samráði við félags- og tryggingamálaráðuneytið og sveitarfélög sem liggja skal fyrir í byrjun árs 2009 fyrir landið allt.
Þá hefur Ásmundi Stefánssyni ríkissáttasemjara verið falið að stýra vinnu þar sem leitað verður nýrra leiða við fjármögnun á uppbyggingu fjölbreyttra búsetu- og þjónustuúrræða fyrir eldri borgara. Einnig verður tekið til endurskoðunar núgildandi fyrirkomulag greiðsluþátttöku einstaklinga sem dveljast á öldrunarstofnunum þannig að mannréttindi og fjárhagslegt sjálfstæði þeirra verði tryggt.
Í ljósi þess að aukin og efld þjónusta til stuðnings við sjálfstæða búsetu aldraðra í heimahúsum mun væntanlega draga úr þörf fyrir hjúkrunarrými verður fyrirliggjandi áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma endurskoðuð fyrir lok árs 2009.
Endanlegur kostnaður við þá uppbyggingu sem framkvæmdaáætlunin tekur til mun ekki liggja fyrir fyrr en að lokinni endurskoðun áætlunarinnar í árslok 2009. Ef miðað er við þörfina eins og hún liggur nú fyrir er áætlaður stofnkostnaður ríkis, sveitarfélaga og sjálfseignarstofnana við fjölgun hjúkrunarrýma samkvæmt áætluninni um 17 milljarðar króna sem dreifist að hluta til á allt að 25 ár. Verulegur hluti uppbyggingarinnar verður fjármagnaður með leigugreiðslum í stað stofnkostnaðarframlags á fjárlögum.