Minnihlutinn í Umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur lagði til á fundi ráðsins í dag að í stað fyrirhugaðs niðurskurðar í þjónustu Strætó bs. vegna 300 milljón kr. kostnaðarauka, leggi Reykjavíkurborg fram aukið fjárframlag til að mæta auknum kostnaði á þessu ári. Tillögunni var frestað.
„Það er með ólíkindum að á sama tíma og meirihlutinn leggur til framkvæmdir við Geirsgötu og Mýrargötu sem kosta munu á annan tug milljarða til úrlausna fyrir einkabílinn, sé verið að leggja til niðurskurð á þjónustu Strætó bs. upp á 300 milljónir króna,“ segir í tilkynningu frá minnihlutanum
Bent er á að samkvæmt greinargerð Alta ehf. um áætlaða losun gróurhúsaloftegunda frá bílaumferð í Reykjavík mengi strætisvagn á við fjóra einkabíla. Í mörgum tilfellum þyrfti því ekki nema fjóra farþega í strætó til að eyðsla og koltvísýringslosun á hvern farþega sé hin sama.
Þá segir að í sömu greinargerð komi enn fremur fram að dregið hafi úr akstri Strætó bs. á undanförnum tveimur árum.
„Það er nú ljóst að meirihlutinn er að heikjast á grænu skrefunum og hástefndum yfirlýsingum um jafnræði allra samgöngumáta og miklu betri Strætó um leið og hann stefnir að lausnum sem auka munu mengun í borginni. Umhverfis- og lýðheilsusjónarmið, hækkandi olíuverð og versnandi staða alþýðuheimila ætti að verða til þess að borgaryfirvöld leggðu meira upp úr þeim ódýra samgöngukosti sem almenningsvagnar eru, í stað þess að draga úr þjónustunni. Það er löngu tímabært að allir samgöngumátar verði raunverulega settir við sama borð og fjármagni úthlutað í samræmi við háleit markmið um græn skref í umhverfisvænni borg.“