Útgáfufélagið Birtíngur ehf. keypti í dag dagblaðið DV og vefsvæðið dv.is af Dagblaðinu Vísi útgáfufélagi ehf. Þetta kemur fram á fréttavef DV. Birtíngur gefur út tímarit, þar á meðal Séð og Heyrt, Vikuna, Gestgjafann, Golfblaðið, Hús og híbýli, Mannlíf og Nýtt líf.
Með kaupunum yfirtekur Birtíngur alla starfssamninga DV. Haft er eftir Elínu G. Ragnarsdóttur, framkvæmdastjóra Birtíngs, að DV verði gefið út með sama hætti og undanfarið og mikil hagræðing náist með því að reka DV samhliða tímaritunum.
Fyrir ári voru DV útgáfufélag og Birtíngur útgáfufélag sameinuð undir eina rekstrarstjórn. Bæði félögin voru í meirihlutaeigu Baugs Group en hluturinn var færður inn í Stoðir Invest fyrr á þessu ári.
Stjórnarformaður Birtíngs er Hreinn Loftsson, hæstaréttarlögmaður. Hann er einnig stjórnarformaður DV útgáfufélags.