Enginn tók eftir honum

Fjólmundur hefur aldrei lent í öðru eins á þeim 45 …
Fjólmundur hefur aldrei lent í öðru eins á þeim 45 árum sem hann hefur verið viðloðandi sjó og sjósókn. Hann hafði heppnina með sér. mbl.is/Björn Björnsson

„Ég var bara á heimferð,“ segir Fjólmundur Fjólmundsson, sem komst lífs af þegar trilla sem hann var á sökk í Skagafirði aðfaranótt sunnudags. „[Þá] kom högg og eins og hár brestur á bátinn. Ég fór fram í og sá að það var kominn leki að honum,“ segir Fjólmundur sem telur bátinn hafa lent á rekavið.

Fyrstu viðbrögð sjómannsins voru þau að sækja síma sinn. Hann hafði kastast til af hillu og fann Fjólmundur hann ekki í myrkrinu. „Það var óvenjulega dimmt.“

Því næst fór hann að huga að því að koma björgunarbátnum út. Kveikti hann þá strax á neyðarsendinum. „Það er bæði sterkt ljós á honum og píp líka. [Auk þess þarf] maður að taka öryggi af honum,“ útskýrir Fjólmundur, en Landhelgisgæslan fékk ekki boðin fyrr en 4 til 5 tímum seinna.

„Ég var alveg viss um að þetta tæki ekki [langan tíma],“ segir hann og bætir við að meðan hann beið hafi hann hafi gert sér vonir um að björgunarmenn yrðu komnir innan hálftíma og hægt yrði að bjarga trillunni. En enginn kom.

„Það bara tók enginn eftir þessu,“ segir Fjólmundur, sem í örvæntingu sinni skaut upp tveimur sólum og notaði tvö handblys. Á meðan horfði hann á bílljósin í fjarska en hvorki gæslan né nærstaddir tóku eftir sjómanninum í neyð.  

Þegar Fjólmundur skilaði sér ekki til hafnar hringdi eiginkona hans í neyðarlínuna og voru björgunarsveitir þegar kallaðar út. Fundu þær Fjólmund um 15 metra frá landi, en þá var hann hólpinn. „En ég var orðinn andskoti uppgefinn.“

„Þú verður að reikna með að þurfa að bjarga þér sjálfur,“ segir sjómaðurinn, sem hefur verið viðloðandi sjó og sjósókn í 45 ár. „Ekki stóla á aðra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert