Grunaður um afbrot í mörgum löndum

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að erlendur karlmaður, sem kom hingað til lands og framvísaði fölsuðu vegabréfi, sæti gæsluvarðhaldi til 1. september. Grunur leikur á að maðurinn sé sekur um afbrot í mörgum löndum.

Maðurinn kom hingað í byrjun júlí og framvísaði fölsuðu belgísku vegabréfi. Hann var dæmdur í 30 daga fangelsi en fékk reynslulausn 26. júlí og sótti þá um hæli hér á landi sem pólitískur flóttamaður.

Síðan hefur komið í ljós, að stjórnvöld á Ítalíu og í Sviss, Þýskalandi og Noregi hafa ítrekað haft afskipti af manninum allt frá árinu 2000 meðal annars vegna ólöglegrar dvalar. Við þau tækifæri hefur hann gefið upp sjö mismunandi nöfn og var eitt þeirra að finna á falsaða vegabréfinu, sem hann framvísaði hér.

Lögregla hér á landi hefur tvisvar haft afskipti af manninum vegna ölvunar og óspekta, annars vegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 2. ágúst sl. og hins vegar 6. ágúst sl. á Miðbakkanum í Reykjavíkurhöfn. 

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms,  að lögreglustjórinn á Suðurneskum telji rökstuddan grun leika á því að maðurinn gefi rangar upplýsingar um það hver hann sé og hann sýni jafnframt af sér hegðun, sem gefi til kynna að af honum geti stafað hætta. Krafðist lögreglan gæsluvarðhalds til 19. september yfir manninum eða á meðan mál hans væru til rannsóknar hjá lögreglu og Útlendingastofnun. Á það féllust dómstólarnir ekki. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert