Eftur Björn Jóh. Björnsson,
Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og fv. utanríkisráðherra, segist í samtali við Morgunblaðið ekki kannast við að íslensk stjórnvöld hafi samþykkt ósk breskra stjórnvalda um stuðning við innrásina í Írak 17. mars 2003, degi áður en Bandaríkjamenn birtu lista „hinna viljugu þjóða“, líkt og haldið er fram í grein Vals Ingimundarsonar sagnfræðings í nýútkominni bók um íslenska utanríkisstefnu.
Halldór segist ekki hafa verið í neinum samskiptum við breska sendráðið á Íslandi eða Breta um þetta mál á þessum tíma. „Ég veit um samskipti við Bandaríkjamenn en veit ekki um nein samskipti við Breta út af þessu máli,“ segir Halldór. Ekkert hafi verið minnst á þennan breska lista á ríkisstjórnarfundi 18. mars 2003, þegar beiðni Bandaríkjamanna um stuðning var tekin fyrir.
„Ég stjórnaði þeim fundi í fjarveru forsætisráðherra (Davíðs Oddssonar - innsk blm) og það var ekkert rætt um Breta þar. Ég hef ekki séð þessa grein Vals og veit ekki hvaða heimildir hann er með. Hann hefur ekkert rætt við mig um þessa bók," sagði Halldór ennfremur við Morgunblaðið.