Heildarúttekt á upplýsingamálum Reykjavíkurborgar kostar borgina 1.239.000 kr. að sögn Regínu Ásvaldsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra. Við upphæðina leggst svo virðisaukaskattur, þannig að heildarkostnaðurinn nemur rúmri einni og hálfri milljón kr.
Reykjavíkurborg gerði samning við fyrirtækið Dægradvöl, sem er í eigu Gunnars Smára Egilssonar, fyrrverandi forstjóra Dagsbrúnar, og tók samningurinn gildi við síðustu mánaðamót. Verkefnið stendur yfir í sex vikur, eða til 15. september nk.
Regína segir verkefnið viðamikið, en Gunnar Smári mun m.a. taka viðtöl við upplýsingafulltrúa, sviðstjóra, og borgarfulltrúa til að kanna viðhorf þeirra til upplýsingamála borgarinnar. Þá verður gerður samanburður við bestu borgir erlendis að sögn Regínu.
Verkefninu að ljúka 15. september og í framhaldinu mun Gunnar Smári skila skýrslu sem verður lögð fyrir borgarráð, sem mun fara yfir þær tillögur sem tíundaðar verða í skýrslunni.