Skyndigifting í lopapeysu og í gúmmískóm

Brúðhjónin eru sæl að sjá á tjaldstæðinu.
Brúðhjónin eru sæl að sjá á tjaldstæðinu. Tálknafjörður.is

Dagurinn 08.08.08 var vinsæll brúðkaupsdagur. Flest brúðhjón taka sér sinn tíma til undirbúnings enda að mörgu að huga. Fyrir þau Jón og Írisi var þó giftingin skyndiákvörðun.

Þau Jón og Íris voru búin að vera á ferðalagi um Vestfirði og gistu á tjaldsvæðinu á Tálknafirði aðfararnótt föstudagsins. Um morguninn ákváðu þau svo að nota föstudaginn á aðeins annan hátt en aðrir ferðamenn og ganga í hjónaband. Það er vefur Tálknafjarðar sem skýrir frá þessu.

Eftir að í ljós kom að bæði presturinn á Tálknafirði og sýslumaðurinn voru í sumarfríi höfðu þau samband við séra Leif Ragnarsson sóknarprest á Patreksfirði og hann gaf þau saman í Patreksfjarðarkirkju  að viðstöddum börnum þeirra hjóna og vígsluvottum.

Klæðnaður brúðhjónanna var hefðbundinn íslenskur ferðamannaklæðnaður, Íris var í lopapeysu sem móðir hennar átti og Jón var á ekta íslenskum gúmmískóm.

Giftingarhringarnir voru keyptir í Fjölval á Patreksfirði og brúðkaupsnóttinni var eytt á tjaldsvæðinu á Tálknafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka