Tónelskar kýr í risafjósi

Úr  hátalara stærsta fjóss á Íslandi að Þverholtum á Mýrum í Borgarfirði hljóma létt íslensk dægurlög. Fyrir fjósinu miðju á annarri hæð er kaffistofa og bar með leðursófasettum þar sem er útsýni yfir gripina í fjósinu. Á veggjunum eru myndir og blóm í pottum lífga upp á umhverfið.

Á þessu stærsta kúabúi landsins eru 175 mjólkandi kýr. 135 eru í fjósinu glæsilega þar sem tveir róbótar sjá um að mjólka. Í gamla fjósinu við hliðina eru fjörutíu kýr sem eru mjólkaðar með mjaltavélum

Í fjósinu eru auk mjólkurkúnna, kálfar, heimaalningur sem kálfarnir hafa tekið ástfóstri við og skapstirð holdakýr sem virðist kunna tónlistarstefnunni í fjósinu afar illa.

Annað fjós á að rísa í október og þangað munu kýrnar úr gamla fjósinu flytja ásamt eitthundrað öðrum. Kvótinn hefur veruð keyptur fyrir býlið frá minni og afskekktari bæjum. Ekki er til kvóti fyrir fjósið sem er að rísa svo hugsanlega verður það rekið utan kerfisins.  

Alls gerir deiliskipulag bæjarins ráð fyrir fjórum fjósum svo framtíðarsýn þessa býlis er mjólkurframleiðsla á við stóra verksmiðju. Enda er Þverholt ekki hefðbundinn bær heldur eignarhaldsfélag sem var stofnað með þátttöku Jóhannesar Kristinssonar athafnamanns. Hjónin Hilmar Sigurðsson og Þóra Þorgeirsdóttir segja þó enga verksmiðjustemmningu á bænum heldur séu kýrnar einstaklingar með nöfn og persónuleika og það sé gaman að vinna í slíku umhverfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert